Innlent

Alvarlega særður eftir árás í Keilufelli

Einn maður liggur alvarlega slasaður, brotinn og með samfallið lunga, eftir fólskulega líkamsárás síðdegis í gær. Lögregla leitar enn allt að átta pólskra karlmanna sem ruddust ásamt fjórum öðrum inn í hús í Keilufelli vopnaðir öxum og bareflum.

Tíu til tólf pólskir karlmenn réðust inn í hús við Keilufell í síðdegis í gær vopnaðir kylfum, exi, slaghömrum og járnröri. Í húsinu voru sjö pólskir karlmenn sem leigja húsið saman. Íbúarnir náðu að hringja á lögreglu og gáfu henni upp bílnúmerið á öðrum bílnum sem árásarmennirnir voru á. Þegar lögregla mætti á staðinn reyndust allir íbúarnir særðir með skurði á höfðum eftir exina, einn var handleggsbrotinn og með áverka í andliti og höndum. Auk þess höfðu árásarmennirnir brotið og bramlað innanstokksmuni.

Fórnarlömbin sjö fóru á slysadeild, sex þeirra fengu að fara heim í gærkvöldi en einn þeirra var lagður inn með samfallið lunga og brotinn á handlegg. Hann er þó ekki í lífshættu. Talið er að árásarmennirnir búi á Suðurnesjum. Og það var lögreglan á Suðurnesjum sem náði að handtaka fjóra þeirra síðdegis í gær. Þeir eru á aldrinum 25-40 ára og eru enn í haldi lögreglu við Hverfisgötu. Hinna mannanna er ennþá leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×