Enski boltinn

Everton og West Ham skildu jöfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dean Ashton og Freddy Sears fagna marki þess fyrrnefnda í dag.
Dean Ashton og Freddy Sears fagna marki þess fyrrnefnda í dag. Nordic Photos / Getty Images
Síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni lauk með jafntefli en þar mættust Everton og West Ham.

Yakubu kom Everton snemma yfir í leiknum með laglegu marki en Dean Ashton jafnaði metin í seinni hálfleik með skalla.

James Tomkins var óvænt í byrjunarliði West Ham en hann er einungis átján ára gamall. Hann kom í stað Matthew Upson sem á við meiðsli að stríða.

David Moyes, stjóri Everton, ákvað að setja Tim Cahill í byrjunarliðið þó svo að hann væri tæpur vegna meiðsla. Hann átti eftir að sjá eftir því þar sem Cahill fór meiddur af velli eftir tíu mínútna leik.

Það var táningurinn Tomkins sem gerði afdrifarík mistök í marki Everton. Hann missti af boltanum og Yakubu lét ekki bjóða sér það tvisvar og afgreiddi knöttinn í netið.

Yakubu kom knettinum aftur í netið skömmu síðar en hann var réttilega dæmdur rangstæður.

West Ham komst nærri því að jafna í fyrri hálfleik er Dean Ashton átti skot úr aukaspyrnu sem Tim Howard varði á ótrúlegan máta.

Snemma í síðari hálfleik kom Freddie Sears inn á fyrir Luis Boa Morte en Sears skoraði sigurmark West Ham gegn Blackburn í sínum fyrsta leik um síðustu helgi.

Innkoma hans hafði jákvæð áhrif á lið Everton og á 68. mínútu kom jöfnunarmark West Ham. Lucas Neill átti fyrirgjöfina frá hægri og Tim Howard var nálægt því að verja skalla Ashton en af honum fór boltinn í stöngina og inn.

Sears komst svo tvívegis nálægt því að skora sigurmarkið annan leikinn í röð undir lokin, í bæði skiptin eftir mistök Phil Jagielka. Í seinna skiptið náði hann að leika á Howard í markinu en boltinn hafnaði í stönginni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×