Lífið

Frumsýningu frestað vegna vinsælda hrollvekju

Fyrirhugaðri frumsýningu Græna ljóssins á heimildarmyndinni King of Kong, sem átti að fara fram í Regnboganum á morgun, verður frestað. Í sjálfu sér ekki af illu. Hryllingsmyndin traugastrekkjandi El Orfanato hefur gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Hana átti að færa í minni sal um helgina til að rýma fyrir King of Kong, en það er ekki hægt vegna mikillar aðsóknar. Því er ekki pláss fyrir King of Kong.

Allt ætlaði um koll að keyra á forsýningu myndarinnar í gær, og í lok hennar stóð fólk á fætur og klappaði. Áhorfendur þurfa ekki að bíða lengi eftir henni, því King of Kong verður frumsýnd á Bíódögum Græna ljóssins, þann 11. apríl. Myndin fjallar um heimsmeistarinn í tölvuspilinu Donkey Kong. Hann er í dag sósumógull sem telur sjálfan sig vera jafn umdeildan og fóstureyðingar. Hann hefur lifað á fornri frægð í áratugi þegar áskorandi skýst fram á sjónarsviðið. Hann er kennari sem dreymir um að slá í gegn og á það til að gráta við minnsta tækifæri.

Annarri mynd, The Fox and the Child, sem frumsýna átti 19. mars, verður einnig frestað fram að bíódögum. Í stað hennar mun Græna ljósið sýna myndina In Bruges, sem er kolsvört kómedía um tvo leigumorðingja sem eru sendir í útlegð til ferðamannabæjarins Bruges eftir að hafa klúðrað síðasta verkefni sínu illa.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.