Lífið

Björk og Sigur Rós með fría tónleika í Laugardalnum

Björk, Sigur Rós og Ghostdigital verða á meðal þeirra sem troða upp á tónleikum sem haldnir verða við grasagarðinn í Laugardal þann 28. júní næstkomandi. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Norræna húsinu sem útgáfufyrirtækið Smekkleysa hélt.

Frítt verður inn á tónleikana, sem verða haldnir í brekkunni við þvottalaugarnar, og er fólk eindregið hvatt til að mæta fótgangandi eða á reiðhjóli.

Aðstandendur tónleikanna segja tilganginn vera þann að vekja athygli á sérstakri náttúru Íslands og þeim krafti sem falinn er í þeirri auðlind.

Frjáls framlög í tengslum við tónleikana eru vel þegin og mun söfnunarátak hefjast í næstu viku. Því fé sem safnast verður varið til að setja upp heimasíðu sem ætlað er að hampa íslenskri náttúru og helstu perlum landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.