Enski boltinn

Moyes: Liverpool líklegri til að ná fjórða sætinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Moyes, knattspyrnustjóri Everton.
David Moyes, knattspyrnustjóri Everton. Nordic Photos / Getty Images

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, segir að Liverpool sé líklegasta liðið til að ná fjórða sætinu í deildinni, því neðsta sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Bæði Liverpool og Everton unnu sína leiki í ensku úrvalsdeildinni í gær. Everton er sem stendur í fjórða sæti með 53 stig en Liverpool er þremur stigum á eftir og á leik til góða.

Liverpool hefur átt þennan leik til góða næstum allt tímabilið, eða allt frá því að leik liðsins gegn West Ham á heimavelli í annarri umferð var frestað. En nú er loksins komið að því að Liverpool spili þennan leik en hann fer fram á miðvikudagskvöldið.

„Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur í baráttunni um fjórða sætið en Liverpool eru enn líklegastir til að ná því," sagði Moyes.

„Við höfum sýnt stöðugleika en það er viðbúið að Liverpool nái fjórða sætinu, eins og veðmangarar hafa réttilega sýnt."

Liverpool og Everton mætast í seinni grannaslag tímabilsins þann 30. mars næstkomandi, á Anfield, og er ekki ólíklegt að sá leikur muni hafa mikil áhrif á baráttuna um fjórða sæti deildarinnar.

Þessi tvö lið eru þó ekki ein um hituna en Aston Villa er tveimur stigum á eftir Liverpool. Blackburn, Manchester City og Portsmouth eru svo ekki langt undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×