Lífið

Leyfilegt að vinna peningaverðlaun í bridge en ekki póker

Breki Logason skrifar
Sindri Lúðvíksson
Sindri Lúðvíksson

„Þetta er ekkert öðruvísi en pókerinn og er bara gjörsamlega fáránlegt," segir Sindri Lúðvíksson pókeráhugamaður um Bridgehátíð 2008. Sérstakt þáttökugjald er í mótinu og fær sigurvegarinn peningaverðlaun.

Sindri sem er eigandi verslunarinnar Gismo.is hélt pókermót á dögunum sem var stöðvað af lögreglu og er málið enn í rannsókn. Hann segist ekki sjá muninn á fyrirkomulaginu á Bridgemótinu og Pókermótinu sem hann hélt á dögunum.

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að póker sé flokkað sem fjárhættuspil þar sem spilað er upp á peninga í hverju spili. „En bridgemót með þessu sniði er bara svipað og golfmót með peningaverðlaunum," segir Friðrik Smári.

„Þetta er nú bara eins og að bera saman epli og appelsínur. Í póker ertu alltaf að spila upp á spilapeninga og tapar aldrei meiru en bara aðgönguféinu. Það þarf heppni í bridge og líka í póker," segir Sindri ósáttur með bannið á pókermótunum.

Eftir upplýsingum frá Bridgesambandinu hafa 135 pör skráð sig til leiks um helgina. Þáttökugjaldið er 30 þúsund á par og má því gera ráð fyrir að verðlaunaféið sé í kringum fjórar milljónir króna.

Sindri segir engan mun vera á þáttökugjaldi í bridgemóti og þegar menn kaupa sér spilapeninga til þess að taka þátt í póker. „Þeim finnst bara vera einhver Vegasfílingur yfir pókernum eða eitthvað."

Sindri hefur þó trú á því að pókermót verði leyfð hér á landi fljótlega. „Þetta er bara eins og með bjórinn og hnefaleikana sem var bannað áður en lifir góðu lífi núna. Þessi lög eru bara barn síns tíma."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.