Lífið

Ekki betri en reyndari bridgespilari en Davíð Oddsson

Breki Logason skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.

„Á þessu móti eru fengnir einhverjir svona skussar úr mannheimum til þess að spila við mjög þekkta og góða spilara utan úr heimi," segir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari um mót á vegum bridgesambandsins sem haldið er á fimmtudaginn.

Um helgina fer fram Icelandic Open þar sem margir af þekktari bridgespilurum heims taka þátt. Daginn áður fer fram létt skemmtimót að sögn Jóns Steinars en hann mun taka þátt ásamt Davíði Odssyni vini sínum.

Jón Steinar segist í gegnum árin hafa tekið þátt í mótum hérna heima en nokkur ár eru þó síðan hann hætti því. „Davíð er meiri svona heimaspilari og hefur aldrei tekið þátt í mótum eins og ég hef gert," segir Jón Steinar.

Ert þú þá ekki betri spilari en hann? „Það eru ekki mín orð en ég er reyndari á þessu sviði," segir Jón Steinar og hlær.

Jón segir að dregið sé í fjögurra manna lið þar sem þekktari og reyndari spilarar séu settir í lið með "meiri skussum" eins og hann orðar það.

„Bridge er margslunginn leikur sem enginn maður lærir nokurntíma til fullnustu. En þetta er mikil og góð hvíld frá því sem maður er að fást við dagsdaglega," segir Jón Steinar sem hefur alveg látið Pókerinn eiga sig.

„Ég spila ekki fjárhættuspil en prófaði póker einu sinni. Það varð mér þá til mikillar ánægju að ég hef ekkert gaman af því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.