Lífið

Erlu er skítkalt í Kína en slapp við versta veðrið

Listakonan Erla Þórarinsdóttir er nú stödd í Kína og hefur búið þar undanfarna tvo mánuði. Hún segir að sér hafi verið skítkalt undanfarnar vikur en hinsvegar sé hún búsett það sunnarlega í landinu að hún hafi sloppið við versta veðrið sem herjað hefur á Kínverja í vetur.

"Annars hef ég verið að fylgjast með fréttum að heiman undanfarna daga og ég á ekki von á að neinn vorkenni mér þó ég sé frosin og köld hér," segir Erla í samtali við Vísi.

Erla er búsett í borginni Xiamen á suðausturströnd Kína. Borgin er það sunnarlega segir hún að á góðum degi geti hún séð yfir til Taiwan. Erla er að vinna að nýju myndlistarverki og fór til Kína til þess því Kínverjar eru mjög framarlega í steinsmíði, einkum grafit.

Erla segir að þar sem hún sé búsett hafi ekki komið frost en hitastigið hafi verið mjög lágt. "Það sem gerir ástandið erfitt er að hér er ekki gert ráð fyrir að þurfi að hita upp hús og því á fólk í erfiðleikum. Það er þó ekkert miðað við það sem hefur verið að gerast hér fyrir norðan borgina," segir Erla.

Eins og kunnugt er af fréttum hafa milljónir Kínverja þurft að láta berast fyrir á járnbrautarstöðvum og umferðarstöðvum þar sem samgöngur landsins lömuðust í óveðrinu sem skall á fyrir tveimur vikum og er talið það versta í ein 50 ár.

"Það versta er yfirstaðið og nú er fólk hér að halda upp á nýár sitt af miklum móð," segir Erla. "Þetta er eiginlega eina fríið sem fólk fær í Kína og af þeim sökum verður steinaverksmiðjan sem ég skipti við lokuð í einar tvær vikur."

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.