Íslenski boltinn

Jafnt í Kaplakrika í hálfleik

Ekkert mark hefur enn litið dagsins ljós í stórleik Landsbankadeildarinnar í Kaplakrika þar sem FH tekur á móti toppliði Keflavíkur.

Leikurinn hefur verið fjörlegur og boðið upp á nokkur marktækifæri. Keflvíkingar áttu hættulegri færi framan af en FH var sterkari aðilinn eftir því sem leið á hálfleikinn.

KR hefur yfir 3-1 gegn Þrótti á KR-velli þar sem Bjarni Guðjónsson, Viktor Bjarki Arnarsson og Björgólfur Takefusa skoruðu fyrir KR, en Hjörtur Hjartarson minnkaði muninn fyrir Þrótt.

Grindavík hefur yfir 1-0 gegn föllnum Skagamönnum í Grindavík og útlitið hjá HK-mönnum er vægast sagt dökkt í fallbaráttunni þar sem liðið er að tapa 2-0 fyrir Fjölni í Grafarvogi þar sem þeir Pétur Markan og Davíð Rúnarsson eru á skotskónum.

Fylkir hefur nokkuð óvænt yfir 2-1 gegn Blikum í Kópavogi þar sem Kristján Valdimarsson og Haukur Ingi Guðnason hafa skorað fyrir gestina, en Jóhann Berg Guðmundsson hafði áður komið Blikum yfir í byrjun með marki úr víti.

Þá hafa Framarar yfir 1-0 gegn Val í Laugardalnum þar sem Ívar Björnsson kom Frömurum yfir eftir aðeins átta mínútna leik.

Fylgst er með leikjunum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×