Innlent

Sveik út tóbak og lottómiða með stolnu greiðslukorti

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í gær dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir fjársvik og fíknefnabrot.

Manninum var gefið að sök að hafa stolið seðlaveski sem hann fann framan við útgang í verslun Húsasmiðjunnar á Selfossi. Notaði hann greiðslukort úr veskinu til þess að svíkja út vörur í söluturni fyrir rúmlega 60 þúsund krónur, þar á meðal tóbak og lottómiða. Þar naut hann aðstoðar konu sem vann í söluturninum. Var hún einnig ákærð í málinu og hafði áður verið sakfelld.

Maðurinn var sama dag gripinn við Þrastalund í Grímsnesi og fann lögregla hass í bíl hans. Maðurinn játaði sök greiðlega en hann á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1990. Í ljósi þess að maðurinn er að vinna í vanda sínum taldi dómurinn rétt að skilorðsbinda refsingu mannsins til tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×