Innlent

Undirbúa aðgerðir gegn tíu veitingastöðum

Starfsmenn umhverfissviðs Reykjavíkurborgar undirbúa nú aðgerðir gegn tíu veitingastöðum í miðborginni vegna brots á reykingabanni. Kráreigendur segja að velta hafi dregist saman um allt að 30 prósent síðan bannið tók gildi.

Reykingabannið tók gildi þann 1. júní á síðasta ári. Þrátt fyrir að gestir veitingahúsa hafi almennt tekið banninu vel samkvæmt skoðunarkönnunum telja eigendur og rekstraraðilar að það hafi haft slæmar afleiðingar fyrir rekstur staðanna.

Veitingastaðurinn Barinn við Laugaveg tók fyrir nokkru í notkun reykherbergi inni á staðnum en slíkt herbergi er skýrt brot á reykingabanninu. Yfirvöld hafa gert athugasemdir við herbergið og krafist þess að því verði lokað. Því hafa eigendur staðarins hins vegar ekki viljað sinna.

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar verður herbergið innsiglað í dag. Þá eru einnig verið að undirbúa aðgerðir gegn tíu öðrum veitingastöðum þar sem reykingabannið er ekki að fullu virt.

Baldvin Samúelsson, eigandi Barsins og formaður Félags kráareigenda, sagðist í samtali við fréttastofu ekki ætla að loka herberginu. Hann segir veitingamenn vera ósátta við samstarfsleysi yfirvalda og að reykingabannið hafi nú þegar skaðað marga veitingamenn.

Segir hann að velta hafi dregist saman um allt að þrjátíu prósent frá því bannið tók gildi fyrir rúmu hálfu ári. Hann hefur nú lagt fram andmæli við kröfu Reykjavíkurborgar að herberginu verði lokað en starfsmenn umhverfissviðs munu taka afstöðu til þeirra í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×