Innlent

Einn hinna grunuðu vann hjá hraðsendingafyrirtækinu sem flutti dópið

Einn þeirra þriggja sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa smyglað inn 5 kílóum af amfetamíni og 600 grömmum af kókaíni með hraðsendingu var starfsmaður fyrirtækisins sem mennirnir notuðu til að koma efnunum til landsins. Rannsókn lögreglu hefur verið afar viðamikil en talið er að málið tengist stórum smyglhring.

Lögreglan handtók í síðustu viku fimm menn sem töldust tengjast málinu en var tveimur þeirra sleppt að loknum yfirheyrslum. Þrír voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald grunaðir um aðild að málinu. Mennirnir eru allir á þrítugsaldri og eru tveir þeirra bræður. Einn mannanna var starfsmaður hjá hraðsendingafyrirtækinu UPS sem starfar á Keflavíkurflugvelli. Hann starfaði samkvæmt heimildum fréttastofu á tollgæslusvæðinu og hafði því greiðan aðgang að sendingum til landsins. Þá vann einn mannanna hjá efnahagsdeild fjármálaráðuneytisins.

Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri segir manninn ekki hafa gengt trúnaðarstöðu innan ráðuneytisins og hafi í starfi sínu ekki haft beinan aðgang að gögnum þess en Tollgæslan heyrir undir fjármmálaráðuneytið. Heimildir fréttastofu herma að lögregla telji að mennirnir séu aðeins peð í stærri smyglhring sem hafi um nokkurt skeið notað hraðsendingar til að smygla fíkniefnum til landsins.

Tollgæslan fann efnin við venjubundið eftirlit í nóvember en þetta er mesta magn fíkniefna sem fundist hafa í hraðsendingum til landsins. Rannsóknin er í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum en hún hefur verið unnin í nánu samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Þá teygir hún anga sína meðal annars til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×