Innlent

Dagur fór að hafa áhyggjur vegna fréttar Vísis

Dagur B Eggertsson fráfarandi borgarstjóri.
Dagur B Eggertsson fráfarandi borgarstjóri.

„Það var vegna fréttar á Vísi sem ég heyrði í Ólafi á mánudagsmorgun. Hann var þá léttur og sagði þetta af og frá og ætlaði að leiðrétta þetta við blaðamann svo þetta yrði úr sögunni," sagði Dagur B Eggertsson fráfarandi borgarstjóri í viðtali við Kastljósið nú í kvöld.

Lýsti hann samskiptum sínum við Ólaf F en umrædd frétt birtist á Vísi klukkan 10:00 í gærmorgun. Þar kom fram að Ólafur F og Vilhjálmur Þ hefðu rætt saman um hugsanlegan nýjan meirihluta í borginni. Dagur var þó ekki stressaður en hafði þó aftur samband við Ólaf þegar leið á daginn þar sem fréttin var enn inni.

„Þá tjáði hann mér að nú hefði Kjartan Magnússon haft samband við sig og boðið sér gull og græna skóga og meðal annars borgarstjórastólinn. Við hlógum saman að því," sagði Dagur sem var orðinn ansi hugsi um fjögur leytið þegar fleiri fjölmiðlar höfðu sýnt áhuga á málinu.

Vísir getur staðfest að Ólafur F hafði aldrei samband til þess að leiðrétta fréttina þar sem fótur var fyrir henni eins og síðar átti eftir að koma í ljós.

„Það var síðan um fjögur að ég heyrði í Ólafi og hann sagði hafa átt í samtölum við Sjálfstæðismenn. En nú ætlaði hann að gefa þeim klárt afsvar. Ég bað hann þá að koma og hitta okkur hin," sagði Dagur en flestir þekkja eftirleikinn sem endaði með því að nýr meirihluti í borginni var kynntur á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum klukkan 19:00 í gærkvöldi.

Dagur sagði að frá sínum bæjardyrum væri þessi ákvörðun Ólafs tilefnislaus því ekki hafi verið neinn ágreiningur um málefni innan þáverandi meirihluta. „Hann er guðfaðir gamla meirihlutans og var fyrsti maðurinn til að hringja í mig þegar hann var stofnaður. Hann vildi standa vörð um að auðlindirnar yrðu í almenningseigu og sveið framganga Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar í því máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×