Innlent

Fara líkindum fram á brottvísun árásarmanna

Lögreglan mun að öllum líkindum upplýsa Útlendingastofnun um feril tveggja útlendinga sem tóku þátt í árás á lögreglumenn í Reykjavík í nótt með það fyrir augum að stofnunin vísi þeim úr landi.

Tveir lögreglumenn úr fíkniefnadeild voru fluttir slasaðir með sjúkrabílum á slysadeild Landspítalans og tveir til viðbótar þurftu að leita þar lækninga eftir árásina, sem var fólskuleg og gerð á Laugaveginum, laust upp úr klukkan eitt í nótt.

Einn þeirra er enn á sjúkrahúsinu en hann hlaut meðal annars þungt höfuðhögg. Eftir að átökin hófust kölluðu lögreglumennirnir á liðsafla og var hópur lögreglumanna sendur á vettvang til að skakka leikinn.

Þrír karlmenn og ein kona voru handtekin en talið er að árásarmennirnir hafi verið að minnsta kosti fimm. Konunni hefur verið sleppt en karlarnir þrír eru enn í haldi.

Tveir þeirra, sem báðir eru ættaðir frá Litháen, hafa áður komið við sögu lögreglu vegna ofbeldisverka, meðal annars vegna árásar á lögrelgumenn. Víðtæk rannsókn stendur nú yfir og verður að öllum líkindum krafist gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir mönnunum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×