Innlent

Bruni í fjölbýlishúsi: Grunur um íkveikju

Mikið tjón varð þegar eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi við Neshaga í nótt. Talið er líklegt að um íkveikju hafi verið að ræða en eldurinn stofnaði lífi fjölda fólks í hættu. Árið 2006 var bensínsprengju kastað inn í þessa sömu íbúð.

Það vegfarandi sem gerði slökkviliðinu viðvart um eldinn laust fyrir klukkan eitt í nótt.

Mikill eldur var í íbúðinni þegar slökkvilið bar að garði og mátti minnstu muna að eldurinn næði að breiðast út.

Í fyrstu var óttast að fólk væri inni í íbúðinni en seinna kom í ljós að íbúðin var mannlaus og húsráðandi, einstæð tveggja barna móðir í útlöndum.

Mikinn reyk lagði upp eftir stigagangi hússins og voru allar íbúðir rýmdar. Ein fjölskylda kaus að gista á hóteli það sem eftir lifði nætur. Slökkvistarf tók um hálftíma en engan sakaði.

Charles Louis Du Beck, sem býr í risíbúð hússins, var sofandi ásamt syni sínum þegar lögreglan vakti hann upp. Hann segist hafa þurft að vefja 4 ára gamlan son sinn inn í teppi til að hlífa honum við reyknum.

Charles er mjög skelkaður eftir þessa lífsreynslu og segir ljóst að hann hefði lokast inni í íbúð sinni ef eldurinn hefði náð að breiðast út. Eitt af hans fyrstu verkum í morgun var að kaupa reykskynjara og reipi. Sonur hans mun þó sofa annars staðar í nótt.

Líklegt er að kveikt hafi verið í íbúðinni af ásettu ráði en lögreglan rannsakar nú málið. Í ágúst árið 2006 var bensínsprengju kastað inn í sömu íbúð og hugsanlegt að þessi tvo mál tengist. Lögreglan verst þó allra frétta en samkvæmt heimildum fréttastofu beinist rannsókn málsins nú að einum ákveðnum aðila. Skýrslur hafa verið teknar af vitnum en enginn hefur þó enn verið yfirheyrður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×