Fótbolti

Kannski ætti tengdamamma þín að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leo Beenhakker, landsliðsþjálfari Póllands.
Leo Beenhakker, landsliðsþjálfari Póllands. Nordic Photos / AFP

Leo Beenhakker, landsliðsþjálfari Póllands, stakk upp á því að Slaven Bilic, landsliðsþjálfari Króatíu, ætti að nota tengdamömmu sína í sókninni gegn Pólverjum í kvöld.

Króatar eru öruggir með efsta sætið í B-riðli á EM 2008 og mun Bilic hvíla marga af sínum byrjunarliðsmönnum enda eru fimm þeirra á gulu spjaldi.

Pólverjar verða að vinna Króata í kvöld og þá helst með 3-4 marka mun. Austurríki verður einnig að vinna Þýskaland en þá með minnsta mögulega mun.

„Kannski að ég geti hringt í Slaven Bilic, minn gamla vin, og beðið hann um að setja tengdamóður sína í sóknina gegn Póllandi," sagði Beenhakker.

Bilic sagði að það gæti orðið erfitt. „Ég er reyndar fráskilinn," sagði hann. „En þeir eiga möguleika og eru með fullmannað lið. Hann þarf því ekkert á tengdamömmu minni að halda."

Beenhakker viðurkennir að möguleikar sinna manna í kvöld eru afar litlir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×