Innlent

Skylmast með kústsköftum í Dýrafirði

Þingeyri við Dýrafjörð.
Þingeyri við Dýrafjörð.

Æfingar í skylmingum og almennu vopnaskaki eru hafnar í reiðhöll á Söndum í Dýrafirði, skammt utan við Þingeyri. Fréttavefurinn Bæjarins besta greinir frá þessu og hefur eftir Valdimar Elíassyni, skylmingamanni á Þingeyri, að bæði konur og karlar æfi skylmingarnar.

Einungis sé þó æft með kústsköftum til að byrja með en þau vonist til að æfa með alvöru sverðum þegar þau eru orðin leiknari, segir Valdimar. Hann segir megintilgang æfinganna þann að geta sýnt skylmingar á víkingahátíðum, gaman væri til dæmis að hafa vopnafæra menn í kringum víkingaskipið á Þingeyri.

Æft sé tvisvar í viku, tvo tíma í senn. Þá hyggi hópurinn á ferðalög á víkingasamkomur erlendis til að berjast við víkinga frá öðrum löndum. Valdimar segir þrælskemmtilegt að skylmast og segir alla sextán ára og eldri velkomna. Sandar, þar sem skylmingarnar eru æfðar, eru skammt frá Haukadal, helsta sögustað Gísla sögu Súrssonar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×