Erlent

Boðað til neyðarfundar á Grikklandi

Forsætisráðherra Grikklands hefur boðað til neyðarfundar vegna óeirðanna sem hófust eftir að lögreglumaður skaut fimmtán ára pilt til bana.

Fimmtíu manns hafa slasast og gríðarlegt eignatjón verið unnið í óeirðunum sem hófust eftir að pilturinn var skotinn síðastliðinn laugardag. Síðan hafa geisað látlausar óeirðir í mörgum borgum Grikklands, aðallega þó Aþenu.

Kostas Karamanlis forsætisráðherra situr í dag röð neyðarfunda með helstu stjórnmálamönnum landsins um leiðir til þess að binda enda á óeirðirnar. Tveir lögreglumenn sem áttu hlut að máli hafa verið handteknir og sakaðir um morð, en það hefur hvergi dugað til að slá á reiði fólks.

Undirliggjandi ástæða þessara miklu viðbragða er megn óánægja með efnahagsástandið. Fyrir atburðinn á laugardag var búið að boða til allsherjarverkfalls í landinu á morgun.

Þetta verður þó síst til þess að bæta efnahag Grikklands. Bensínsprengjum hefur verið kastað í allar áttir og yfir 130 verslanir eyðilagst í eldi. Kaupmenn sjá framá að jólaverslunin sé hrunin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×