Innlent

Kynbundinn launamunur eykst milli ára hjá SFR-félögum

Árni Stefán Jónsson er formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson er formaður SFR. MYND/Völundur

Kynbundinn launamunur hjá stéttarfélaginu SFR reyndist 17 prósent samkvæmt nýrri launakönnun sem Capacent gerði fyrir félagið. Eykst hann um þrjú prósent á milli ára.

Fram kemur á heimasíðu SFR að meðalheildarlaun félagsmanna í fullu starfi hafi verið rúmar 300 þúsund krónur í ár. Meðalheildarlaun karla voru 376 þúsund en kvenna 274 þúsund. Konur höfðu því samkvæmt launakönnuninni um 27 prósentum lægri heildarlaun er karlar.

Þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, vinnutíma og menntunar og fleiri þátta reynist óútskýrður launamunur um 17 prósent en hann var rúm 14 prósent í könnun sem gerð var í fyrra. „Því miður sýnir launakönnunin að launamunur kynjanna er viðvarandi og vaxandi vandamál hjá hinu opinbera og lítur SFR það mjög alvarlegum augum," segir í tilkynningu SFR.

Færri undir 200 þúsund krónum

Könnun SFR leiðir enn fremur í ljós að meðalgrunnlaun SFR-félaga hafi verið 252 þúsund og hækkuðu þau um 14 prósent að meðaltali á milli áranna 2007 og 2008. Heildarlaunin hækkuðu um 11 prósent. „Á sama tímabili hækkuðu kjarasamningsbundin laun um 5,26% sem skýrist af 3,2% hækkun launa frá og með 1. maí 2007 og 2% hækkun á launatöflu um áramót 2007-2008. Það má því segja að heildarlaun félagsmanna SFR hafi hækkað um 6 prósentustig umfram kjarasamningsbundnar hækkanir á árinu og grunnlaun að sama skapi um níu prósentustig umfram samningsbundnar hækkanir," segir SFR.

Verulega hefur fækkað í þeim hóp félagsmanna SFR sem eru með undir 200 þúsund krónur í heildarlaun. Þeir voru um 19 prósent félagsmanna í fyrra en eru nú níu prósent. Sömuleiðis hefur fjölgað í hópi þeirra félagsmanna sem hafa yfir 400 þúsund í mánaðarlaun. Í fyrra voru það níu prósent félagsmanna en nú eru það tæp 17 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×