Íslenski boltinn

Ísland niður um þrettán sæti á FIFA-listanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Íslenska landsliðið í knattspyrnu féll um þrettán sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA.

Ísland hefur ekkert spilað síðan að síðasti listi var gefinn út í byrjun júní. Þá var liðið í 85. sæti en er nú í 98. sæti.

Versta staða Íslands á listanum var í ágúst í fyrra er liðið var í 117. sæti. En strax í næsta mánuði hoppaði landsliðið upp um 37 sæti.

Spánverar eru í efsta sæti listans eftir að þeir urðu Evrópumeistarar í síðasta mánuði. Þetta er í fyrsta sinn síðan listinn var tekinn í notkun árið 1993 sem liðið kemst í efsta sætið.

Spánn er aðeins sjötta þjóðin sem nær efsta sæti listans. Hinar fimm eru Frakkland, Brasilía, Ítalía, Þýskaland og Argentína.

Ítalía er í öðru sæti þrátt fyrir misjafnt gengi á EM 2008 og Þýskaland hoppar úr fimmta sæti í það þriðja. Brasilía er nú í fjórða sæti og Holland hoppar úr tíunda sæti í það fimmta.

Hástökkvarar listans eru Súrínam sem hoppa upp um 58 sæti og eru nú í 87. sæti. Burkina Faso stökk upp um 47 sæti á listanum og eru í 64. sæti.

Það var mikið spilað í undankeppni HM 2010 í Asíu og Afríku í júní sem skýrir gott gengi þessara liða sem og fall íslenska liðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×