Innlent

Segir gagnrýni á Davíð vera múgsefjun

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson.

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðisins, segir að sú gagnrýni sem beinst hefur að Davíð Oddssyni, seðlabankastjóri, undanfarið sé múgsefjun. Málflutningur andstæðinga hans gangi ekki. Tvisvar sinnum á síðustu þrjátíu árum hafi landsmenn upplifað múgsefjun af þessu tagi áður.

,,Í fyrra skiptið vegna hins svonefnda Geirfinnsmáls, þegar Ólafur Jóhannesson, þá dómsmálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins var sakaður um það á götum Reykjavíkur og í sumum fjölmiðlum að vera í sérstöku sambandi við undirheima Reykjavíkur og hundeltur af þeim sökum. Og í seinna skiptið í Hafskipsmálinu svonefnda, þegar réttarkerfið fór offari, eggjað áfram af dómstólum götunnar," segir Styrmir í grein á vefsíðunni AMX.is í dag.

Samfylkingin á ekki að ráða ferðinni

Ritstjórinn fyrrverandi segir að stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu líti á efnahagshrun undanfarinna vikna sem tækifæri. Eina ráðið til þess að lifa af er að ganga í ESB og taka upp evru.

,,Samfylkingin er hinn pólitíski málsvari þessara viðhorfa og hefur myndað eins konar bandalag með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Alþýðusambandi Íslands um að koma þeim fram. Þessir aðilar vilja leysa aðkallandi en tímabundið vandamál með því að fórna miklum hagsmunum Íslendinga til allrar framtíðar," segir Styrmir.

Styrmir segir að úr herbúðum Samfylkingarinnar berast kröfur um að flokkurinn slíti stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn samþykki landsfundurinn ekki stefnubreytingu gagnvart ESB. Styrmir segir að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki látið samstarfsflokkinn setja sig upp að vegg með þeim hætti.

,,Það er engin ástæða til að ætla, að umfjöllun um ESB á vegum Sjálfstæðisflokksins leiði til stefnubreytingar á landsfundi. Þar þarf meira til en áskorun Samfylkingar og stjórnmálafræðinga hennar í Háskóla Íslands," segir Styrmir.

Ekki hægt að víkjast undan kosningum

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki vikist undan því að kosningar verði fyrr en við lok kjörtímabilsins, að mati Styrmis. Hins vegar sé eðlilegt að áður en þær fara fram hafi almenningur aðgang að öllum upplýsingum um bankahrunið og aðdraganda þess. Fyrr geta kjósendur ekki kveðið upp sinn dóm.

Styrmir segir að gert sé ráð fyrir að skýrsla rannsóknarnefndar um bankahrunið liggi fyrir 1. nóvember á næsta ári. Þegar hún hafi verið birt og rædd sé sjálfsagt að kjósa strax. ,,Fyrir 30 árum var kosið í desember 1979. Það er hægt að kjósa aftur í desember 2009."

Endurkoma á vettvangi Sjálfstæðisflokksins

Verði Davíð Oddsson þvingaður út úr Seðlabankanum telur Styrmir líklegast að formaðurinn fyrrverandi hefji þátttöku í stjórnmálum á ný á vettvangi Sjálfstæðisflokksins.

,,Hvernig gæti það gerzt? Á þann einfalda hátt, að hann byði sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í næstu þingkosningum, sem líklegt er að verði fyrr en síðar. Og hvers vegna skyldi hann gera þetta? Til þess að fá hinn endanlega dóm stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins um stefnu sína og störf á vettvangi stjórnmálanna, eftir það sem á undan er gengið."

Grein Styrmis er hægt að lesa hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×