Innlent

Íslendingar komast í gegnum erfiðleikana

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði við eldhúsdagsumræður á Alþingi í dag að Íslendingar hefðu áður staðið frammi fyrir áföllum og komist í gegnum þau og það myndi þjóðin einnig gera núna. Hann ætti von á að erfiðleikarnir myndu víkja fyrir betri tíð.

Ráðherra gerði að umtalsefni sínu aðgerðir ríkisstjórnarinnar á fyrsta ári hennar. Sagði hann ríkisstjórnina hafa lagt fram mikinn fjölda þingmála og 80 prósent þeirra mála sem kveðið væri á um í stjórnarsáttsmála væru fullafgreidd eða komin í ákveðinn farvegi. Minnti Geir þar á stefnumarkandi mál í orkugeira, menntamálum og heilbrigðismálum.

Geir sagði að íslenska þjóðarbúið hefði orðið fyri ófyrirsjáalegum búsfijum vegna undirmálslána í Bandaríkjunum. Um leið hefði verð á ýmsum nauðsynjum á alþjóðamarkaði hækkað. Lausafjárskortur og almennt versnandi staða hefði leitt til þess að bankarnir hefðu dregið úr útlánum. Gengið hefði enn fremur lækkað meira en búist hefði verið við.

Auknar opinberar framkvæmdir á þessu ári

Ráðherra sagði að nú sæi fyrir endann á viðamiklum framkvæmdum, bæði uppbyggingu stóriðju og nýbygginga. Óhjákvæmilega myndi hægja á hjólum íslensks efnahagslífs á næstunni. Því hefði ríkisstjórnin ákveðið að auka opinberar framkvæmdir á þessu ári og það ætti eftir að koma sér vel síðar á árinu. Markmið ríkisstjórnarinnar væri að ekki yrði mikill samdráttur og mikið atvinnuleysi hér á landi en vinna að því kallaði á samráð allra aðila í samfélaginu sem þegar væri hafið.

Þá sagði hann 500 milljarða króna lántökuheimild ríkissjóðs ekki vera til að fjármagna rekstur ríkissjóðs heldur auka gjaldeyrisforða Seðlabankans, varasjóðs landsmanna.

Forsætisráðherra sagði kjarasamninga hafa verið hófstillta og þakkaði aðilum vinnumarkaðarins fyrir það. Rakti hann enn fremur aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að stuðla að þeim. Þá gerði hann varnarmál að umtalsefni og sagði Íslendinga hafa þurft að taka aukið frumkvæði í þeim málaflokki með brotthvarfi Bandaríkjahers. Það hefði verið gert enda tæki ríkisstjórnin alvarlega það hlutverk sitt að tryggja öryggi landsins.

Geir sagði langan og erfiðan vetur að baki en hann ætti von á að bjartari tímar væru ekki langt undan. Íslenska þjóðin hefði áður staðið frammi fyrir áföllum og staðið þau af sér og það mydni hún einnig gera núna.


Tengdar fréttir

Efnahagsvandi fyrirsjáanlegur

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, flutti fyrstu ræðu á eldhúsdagsumræðum sem hófust rétt fyrir klukkan átta.

Guðni sakar Geir um blekkingar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi nú undir kvöld að ríkisstjórnin væri sundruð í mörgum málum og byggi við minnkandi tiltrú landsmanna. Hann vitnaði í sr. Bjarna Jónsson, fyrrverandi dómkirkjuprest. „Oft var þörf, en nú er nauðsyn að biðja fyrir ríkisstjórninni,“ sagði Guðni.

Segir ríkisstjórnina ósamstíga í mörgum málum

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði við eldhúsdagsumræður í kvöld að auka ætti þorskveiðarnar. Það væri samdóma álit þeirra manna sem hann hefði rætt við að ekki væri ástæða til að fara eftir þeim mörkum sem Hafrannsóknarstofnun hafi sett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×