Innlent

Segir ríkisstjórnina ósamstíga í mörgum málum

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði við eldhúsdagsumræður í kvöld að auka ætti þorskveiðarnar. Það væri samdóma álit þeirra manna sem hann hefði rætt við að ekki væri ástæða til að fara eftir þeim mörkum sem Hafrannsóknarstofnun hafi sett.

Hann sagði jafnframt að niðurstöður mannréttindanefndar Evrópusambandsins væri áfellisdómur yfir kvótakerfinu. Ríkisstjórn sem bryti mannréttindi á þegnum sínum á ekki skilið sæti í öryggisráðinu.

Þá gerði Guðjón Arnar sundurlyndi stjórnarflokkanna að umtalsefni og sagði þá vera ósamstíga í mörgum málum. Nefndi hann sem dæmi ágreining um hvalveiðar sem væri borinn á torg á alþjóðavettvangi. Það væri skoðun sín að rúm væri fyrir hvalveiðar og hvalaskoðun samtímis. Hann nefndi jafnframt ólíkar skoðanir stjórnarþingmanna í málefnum Ríkislögreglustjóra og afstöðu til Evrópusambandsins.

Guðjón sagði Frjálsynda flokkinn vilja hjálpa flóttafólki þar sem það byggi ef því væri komið við. Þeir vildu jafnframt taka á móti flóttamönnum og teldu að Íslendingar ættu að leggja sitt af mörkum í mannúðarstörfum. Íslendingar yrðu að hjálpa sem flestum.

Þá lagði formaður Frjálslynda flokksins áherslu á samgöngur og sagðist styðja frekari jarðgangagerð í landinu. Þakkaði hann Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra fyrir að hafa staðið vörð um Reykjavíkurflugvöll á þeim stað sem hann væri. Það skipti miklu máli fyrir landið að hafa flugvöllinn nálægt miðbæ Reykjavíkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×