Innlent

Námsmenn erlendis fá ekki sjálfkrafa aukalán vegna kreppunnar

MYND/GVA

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að umsóknir námsmanna erlendis um aukalán vegna kreppunnar verði metnar hver fyrir sig og því fái námsmenn lánið ekki sjálfkrafa. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri - grænna, vísaði í fyrirspurn sinni til samkomulags sem Samband íslenskra námsmanna erlendis hefði gert við stjórnvöld vegna hruns íslensku krónunnar. Þar væri veigamest aukalán vegna röskunar á högum erlendis. Hins vegar kæmi fram að nemandi þyrfti að sýna fram á sára neyð til þess að fá slíkt lán og spurði Katrín hvort slík sár neyð hefði verið skilgreind. Sagði hún nefndarmenn í menntamálanefnd hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir frá námsmönnum vegna þessa og spurði hún því ráðherra hvernig skilgreint yrði hverjir fengju þessi aukalán.

Menntamálaráðherra sagði ljóst að menn væru að fara í þessa vegferð í fyrsta sinn og mikið álag væri á starfsfólki Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Við ættum að nýta menntakerfið til þess að koma til móts við þá sem væru í erfiðleikum. Hins vegar sagði hún að það væri ekki þannig að fólk fengi aukalánin sjálfkrafa heldur væri hver beiðni frá námsmönnum erlendis metin sérstaklega. Það væri mikil alvara að taka á þessum málum því það væri stór hópur sem hefði orðið fyrir skakkaföllum vegna kreppunnar.

Voru Katrín og Þorgerður sammála um að nýta ætti Lánasjóðinn til þess að aðstoða fólk við núverandi aðstæður og tryggja yrði að fólk gæti lokið sínu námi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×