Innlent

Fjármálaeftirlitið fær víðtækar heimildir - húsnæðislán banka til ÍLS

Geir Haarde flutti frumvarpið í dag.
Geir Haarde flutti frumvarpið í dag.

Geir H. Haarde forsætisráðherra mælti fyrir stundu fyrir nýju frumvarpi um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Samkvæmt því fær Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir til þess að hafa afskipti af fjármálafyrirtækjum. Þá fær fjármálaráðherra heimild til þess að reiða fram fjármagn til þess að stofna ný fjármálafyrirtæki eða taka þau yfir. Þá fær ráðherra heimild til að leggja sparisjóði til allt að 20 prósent af bókfærðu fé hans.

Þá er lögum um innistæðutryggingar breytt þannig að innistæðukröfur séu forgangsatriði ef fjármálafyrirtæki fer í gjaldþrot. Þetta undirstrikar að innistæður Íslendinga í íslenskum bönkum séu tryggðar ef tryggingasjóður er ekki nægilega öflugur til þess að sinna þeim skyldum.

Þá er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður fái heimild til þess að yfirtaka húsnæðislán sem önnur fyrirtæki hafa veitt fólkinu í landinu.

Samkvæmt frumvarpinu fær Fjármálaeftirlitið heimild til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja í því skyni að takmarka tjón á fjármálamarkaði. Þá hefur eftirlitið heimild til að taka völd á hluthafafundi til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir og víkja til að mynda stjórn frá og taka yfir hluta eða allan rekstur fjármálafyrirtækis. Þá getur Fjármálaeftirlitið bannað fyrirtækjum að ráðstafa eignum sínum. Það getur tekið eignir og látið meta þær upp í kröfur. Þá getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að fyrirtæki fari fram á greiðslustöðvun.

Forsætisráðherra sagði að þetta væru nýmæli í lögum en þetta þekktist í lögum annarra landa. Þetta lýsti ástandi á mörkuðum og bæri brátt að en brýnt væri að hraða afgreiðslu málsins til þess að heimildir laganna yrðu virkar sem fyrst.

Frumvarpið í heild sinni má lesa hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×