Innlent

Óvíst hvort Kauphöllin verður opin

Óvíst er hvort Kauphöllin verði opin á morgun. Forystumenn ríkisstjórnarinnar funda enn í Ráðherrabústaðnum.

Rætt hefur verið um að Kauphöllin yrði lokuð á morgun ef ríkisstjórnin næði ekki að klára þau mál sem unnið hefur verið að um helgina. „Ég bara veit það ekki," sagði Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, þegar Vísir spurði hann að því hvort Kauphöllin yrði lokuð á morgun.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi Kauphallarinnar og það er ákvörðun Fjármáleftirlitsins hvort Kauphöllin verður opin eða ekki. Ragnar sagðist ekki gera sér fyllilega grein fyrir því hvenær ákvörðun um starfsemi Kauphallarinnar á morgun þyrfti að liggja fyrir.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar funda enn og nú um klukkan átta eru leiðtogar hagsmunasamtaka úr atvinnulífinu að mæta til fundar við þá.

Hvorki náðist í Jónas Fr. Jónsson, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, né Þórð Friðjónsson, forstjóra Kauphallarinnar, við vinnslu þessarar fréttar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×