Lífið

Hvílir bölvun á Bond?

Þá er það opinbert. Það hlýtur að hvíla bölvun á nýjustu Bond-myndinni, Quantum of Solace. Röð slysa hefur dunið á myndinni, og nú var það sjálfur aðalleikarinn sem meiddist.

Fyrsta óhappið varð þegar áhættuleikari keyrði fokdýran Aston Martin út af vegi við Garda vatn á Ítalíu með þeim afleiðingum að hann steyptist á bólakaf í vatnið. Fjórum dögum síðar klikkaði annar áhættuleikari á sama vegi og klessukeyrði Alfa Romeo bifreið. Hann stórslasaðist en lifði þó af.

Næst var komið að 58 ára tæknimanni við myndin, sem var stunginn ítrekað af konu sem hann fór heim með eftir ball. Í millitíðinni hafði vandræðabarnið Amy Winehouse hætt við að syngja fyrirhugað titillag myndarinnar.

Og nú er það semsagt aðalleikarinn, hjartaknúsarinn Daniel Craig, sem lenti í vandræðum. Hann hefur sjálfur leikið í öllum áhættuatriðum, og með misjöfnum árangri. Fyrir um viku síðan stakkst oddhvass hlutur í andlit hans svo sauma þurfti átta spor. Í gær skar hann framan af einum fingri, og þurfti að skreppa aftur á sjúkrahús. Meiðsli hans voru þó ekki alvarleg og hann sneri aftur til vinnu sama dag.

Að því gefnu að tökur gangi stórslysalaust verður myndin frumsýnd á Íslandi þann 7. nóvember á þessu ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.