Innlent

Ólíklegt að niðurstaða um IMF liggi fyrir í dag

Ekki liggur fyrir hvort stjórnvöld muni óska eftir aðstoð frá Alþjóðgaldeyrissjóðnum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fundað stíft alla helgina vegna málsins.

Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa lagt áherslu á að gengið verði frá samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrst. Þetta kom meðal annars fram á fundi Samfylkingarinnar í gær.

Þá hafa fjölmargir sérfræðingar einnig lýst því yfir að hjálp frá sjóðnum sé það eina raunhæfa í stöðunni þar sem almennt vantraust virðist ríkja gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum og Seðlabankanum.

Ekki liggur fyrir hvaða skilyrði sjóðurinn setur fyrir mögulegri lánveitingu. Ráðherrar hafa þó vísa því á bug að þjóðin þurfi að veðsetja auðlindir sínar.

Í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á fundi Samfylkingarinnar í gær kom fram að sjóðurinn virðist fyrst og fremst horfa til framtíðar reglugerða varðandi fjármálastarfsemi hér á landi.

Óski ríkið eftir aðstoð frá sjóðnum þykir líklegt að aðrar lánalínur kunni að opnast meðal annars frá Norðurlöndum.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu meðal annars um málið um helgina og verður fundarhöldum framhaldið í dag. Samkvæmt heimildum Stöðvar tvö er meðal annnars verið að kortleggja grundvöllinn fyrir aðstoð frá sjóðunum. Ólíklegt þykir að niðurstaða liggi fyrir í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×