Innlent

Tilkynningum um barnaverndarmál fækkar um tíu prósent

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Tilkynningum um barnaverndarmál fækkaði um rúm tíu prósent á fyrri helmingi þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram á vef Barnaverndarstofu.

Alls voru tilkynningarnar nærri 4.400 á fyrri helmingi síðasta árs en þær voru rúmlega 3.900 á sama tíma í ár. Þessa fækkun má einkum skýra með fækkun tilkynninga frá lögreglu. Á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi árs bárust barnaverndarnefndum rúmlega 2.100 skýrslur frá lögreglu en árið 2007 voru þær nærri 2.600. Tilkynningum frá lögreglu hefur því fækkað um rúmlega 400 þegar litið er til fyrstu sex mánaða hvors árs um sig.

Flestar tilkynningar eru vegna áhættuhegðunar barna eða um helmingur allra tilkynninga. Þá reyndust 28 prósent tilkynninga vegna vanrækslu á börnum, um fimmtungur vegna ofbeldis gegn börnum og um eitt prósent tilkynninga var vegna þess að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu.

„Tilkynnt var um 3.393 börn á fyrstu sex mánuðum ársins 2008 en sambærileg tala í fyrra var 3.567. Tilkynnt hefur því verið um 5% færri börn á fyrstu sex mánuðum ársins 2008 en 2007," segir einnig á vef Barnaverndarstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×