Lífið

Lögreglukórinn syngur við 15. lögreglumessuna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kórinn á góðri stund í Grafarvogskirkju.
Kórinn á góðri stund í Grafarvogskirkju. MYND/Pjetur Sigurðsson

Lögreglukór Reykjavíkur undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar syngur við lögreglumessu í Langholtskirkju á fimmtudaginn, 1. maí. Þetta er í fimmtánda skipti sem sérstök lögreglumessa er haldin.

„Við byrjuðum á þessu fyrir 15 árum og þetta var svona innlegg okkar í þetta sem starfsstéttir eru að gera 1. maí, við förum nú ekki í kröfugöngu," sagði Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn. „Við erum að styrkja andann og fá innlegg frá góðum ræðumönnum, Snorri Magnússon, nýkjörinn formaður landssambandsins [lögreglumanna] mun tala auk þess sem kórinn syngur þarna. Þetta eru voðalega léttar og skemmtilegar messur og svo setjumst við að kaffidrykkju og góðu meðlæti á eftir og njótum þess að eiga sameiginlega stund," sagði Geir Jón enn fremur.

Hann sagði messurnar hafa verið vel sóttar fram að þessu, bæði af fjölskyldum lögreglumanna og almenningi. Lögreglumessan hefði farið fram í ýmsum kirkjum, t.d. einu sinni á Akureyri.

Séra Hans Markús Hafsteinsson, héraðsprestur og fyrrverandi lögreglumaður, þjónar fyrir altari ásamt sr. Kjartani Erni Sigurbjörnssyni sjúkrahúspresti sem jafnframt er prestur lögreglunnar. Messan hefst klukkan 11 á fimmtudagsmorgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.