Innlent

Framkvæmdastjóri LÍN: Mikilvægast að gjaldeyrisviðskiptin fari í gang

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lánasjóður íslenskra námsmanna.
Lánasjóður íslenskra námsmanna.

„Það er ljóst í stöðunni núna að það sem skiptir mestu máli er að gjaldeyrisviðskipti geti átt sér stað á milli Íslands og annnarra landa. Úrlausn þess máls er á könnu seðlabanka og fjármálaeftilits, þannig að það er lítið annað sem við getum gert annað en að vekja athygli þessara stjórnvalda á þessari stöðu," segir Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Fjöldi íslenskra námsmanna er í vandræðum vegna þess að viðskipti með íslensku krónuna hafa legið niðri og námsmenn hafa til dæmis ekki geta tekið út peninga úr hraðbanka fyrir matvörum og öðrum nauðsynjum.

Steingrímur segir að stjórn Lín hafi verið í sambandi við menntmálaráðuneytið vegna þeirrar slæmu stöðu sem íslenskir námsmenn erlendis eru í vegna stöðu íslensku krónunnar. Þá hafi málið verið rætt á stjórnarfundi í gær.

Steingrímur segir að þegar búið sé að koma gjaldeyrisviðskiptum í gang aftur sé hægt að kortleggja þau vandamál sem hafi verið að koma upp og hvað síðan megi gera til að koma til móts við fólk sem er í erfiðri stöðu fjárhagslega. „En það sem er aðkallandi og brýnast er að koma þessum gjaldeyrisviðskiptum í rétt horf," segir Steingrímur.






Tengdar fréttir

Námsmenn erlendis kvíðnir

Námsmenn erlendis eru orðnir verulega kvíðnir vegna ástandsins í gjaldeyrismálum. Garðar Stefánsson, formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis, segir að það rigni athugasemdum yfir Sambandið frá fólki í vandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×