Innlent

Námsmenn erlendis kvíðnir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Garðar Stefánsson, formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis.
Garðar Stefánsson, formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis.

Námsmenn erlendis eru orðnir verulega kvíðnir vegna ástandsins í gjaldeyrismálum. Garðar Stefánsson, formaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis, segir að það rigni athugasemdum yfir Sambandið frá fólki í vandræðum. „Krónan er ekki lengur gjaldgeng á erlendum millibankamörkuðum, þannig að fólk getur ekki tekið ut peninga nema það hafi komið sér upp einhverjum erlendum reikningum," segir Garðar. Hann bendir á að það séu ekki allir með reikninga í námslandinu enda sé töluvert mikil skriffinnska sem liggi að baki því að koma sér upp slíkum reikningum.

Stjórn SÍNE skrifaði í dag menntamála-, viðskipta- og utanríkisráðherra bréf og bað um fund til að fara yfir stöðu námsmanna erlendis. SÍNE vill, í samstarfi við þessa aðila, athuga hvaða úrræði eru tiltæk til að bregðast við alvarlegu efnahagsástandi og áhrifa þeirra á námsmenn. Sérstaklega hafa samtökin áhyggjur af að lokað hafi verið fyrir allar millifærslur á fjármunum frá Íslandi. Garðar segir í samtali við Vísi að stjórnvöld hafi brugðist vel við erindinu og séu að vinna í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×