Innlent

Fríkirkjan sjónvarpar frá útför Rúnars Júlíussonar

Rúnar Júlíusson lést á föstudaginn.
Rúnar Júlíusson lést á föstudaginn.

Útför Rúnars Júlíussonar tónlistarmanns verður sýnd í beinni í Fríkirkjunni í Reykjavík og í Duus-húsum í Reykjanesbæ. Séra Hjörtur Magni Jóhannsson Fríkirkjuprestur segist telja að um nýbreytni sé að ræða. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, en mér finnst þetta mjög við hæfi," segir Hjörtur Magni. „Mér finnst mjög ánægulegt að Fríkirkjan geti orðið vettvangur fyrir þá sem eru hér í bænum og vettvangur fyrir þá sem vilja kveðja án þess að keyra Reykjanesbrautina," segir Hjörtur.

Hjörtur er Keflvíkingur eins og Rúnar var og segist hafa þekkt Rúnar lauslega. Hann hafi verið nokkur fyrirmynd sín eins og annarra Keflvíkinga. Hjörtur Magni segir þó að að það hafi ekki verið sín hugmynd að sýna beint frá útförinni heldur hafi Magnús Kjartansson tónlistarmaður stungið upp á því. Hjörtur segist ekki gera sér grein fyrir því hversu margir verði viðstaddir í Fríkirkjunni. Eflaust muni margir keyra suðureftir en þeir sem ekki hafi tök á því geti mætt í Fríkirkjuna.

Útför Rúnars fer fram frá Keflavíkurkirkju næstkomandi föstudag klukkan tvö.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×