Innlent

Óskynsamlegt að lýsa yfir auknum þorskkvóta

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það yrði mjög óskynsamlegt af sinni hálfu að lýsa því yfir að til stæði að auka þorskkvóta. Slíkar ákvarðanir eigi sjávarútvegsráðherra að taka á grundvelli ráðlegginga vísindamanna.

Samúel Örn Erlingsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherra hvort hann teldi koma til greina að auka þorskkvótann í ljósi alvarlegrar stöðu efnahagslífsins. Kvótinn hefði verið skorinn niður í fyrra í góðæri en nú hrikti í stoðunum og þá yrðu menn að ganga eins langt og skynsemin leyfði.

Geir H. Haarde sagði ljóst að aukin verðmætasköpun væri forsenda þess að bæta kjörin í landinu en ekki væri hægt að hrapa að endurskoðun á ákvörðun um þorskkvóta. Hún væri byggð á vísindalegum grundvelli. Benti forsætisráðherra á að sjávarútvegsráðherra væri með þessi mál stöðugt til skoðunar og hann væri í góðu sambandi við greinina og vísindamenn. Það væri hins vegar ekki hyggilegt að blanda þessu inn í umræðuna um ástandið nú og það væri mjög óskynsamlegt af honum að lýsa því yfir að til stæði að auka þorskkvóta.

Þá spurði flokksbróðir Samúels, Höskuldur Þórhallsson, forsætisráðherra að því hvort ríkisstjórnin myndi í ljósi aðstæðna beita sér fyrir stóriðjuframkvæmdum í Helguvík og Bakka.

Geir svaraði því til að halda þyrfti áfram uppbyggingu á grundvelli náttúruauðlinda. Benti hann á að byrjað væri að reisa álver í Helguvík en álver á Bakka væri flóknara verkefni. Hann vissi þó ekki annað en allir væru að heilum hug að leysa úr því máli eftir því sem hægt væri. Hann fullvissaði Höskuld um að hann styddi Bakkaálver og efaðist ekki um eindreginn vilja Samfylkingarinnar í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×