Lífið

Golfmót til styrktar hjartveikum börnum

Bergur Leon og foreldrar hans Bjarni og Lilja.
Bergur Leon og foreldrar hans Bjarni og Lilja.

 

Þann 25. júní næstkomandi gefst kylfingum einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða í þágu hjartveikra barna. Þá verður spilað golf til góðs á fimm golfvöllum á Reykjavíkursvæðinu. Að auki fer Stjörnugolf Nova fram í fimmta sinn á Urriðavelli í Garðabæ þar sem 20 þjóðþekktir Íslendingar taka þátt. Allt söfnunarfé rennur óskipt til Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna.

Innifalið í þátttökugjaldi er vallargjald fyrir tvo keppendur, teiggjafir, veitingar fyrir golf, matur, drykkir og skemmtun að golfi loknu. Skráning í Stjörnugolf Nova fer fram á stjornugolf@visir.is og þarf að koma fram nafn fyrirtækis, kennitala, þátttakendur og forgjöf. Nánari upplýsingar um mótið má finna hér.

Hér á landi greinast um 70 börn á ári með hjartagalla og þarf tæplega helmingur þeirra að gangast undir aðgerð af einhverju tagi. Mörg barnanna þurfa að gangast ítrekað undir aðgerðir erlendis og hleypur kostnaðurinn á hverja fjölskyldu á hundruðum þúsunda og allt upp í nokkrar milljónir.

„Það er mikið áfall fyrir fjölskyldur þegar börn greinast með hjartagalla. Þrátt fyrir að hið opinbera taki þátt í kostnaðinum sem fylgir aðgerðum, þá dugar það engan veginn fyrir heildarútgjöldum sem felast í umönnun, ferðalögum og vinnutapi sem dæmi," segir Guðrún Bergmann Franzdóttir, formaður Neistans.

Neistinn er því mikilvæg lífæð fyrir fjölskyldur hjartveikra barna. Allt söfnunarféð úr Stjörnugolfi Nova - Golf til góðs! rennur óskipt í Styrktarsjóð hjartveikra barna.

Bergur Leon Bjarnason er þriggja ára strákur úr Keflavík. Hann er hjartveikur og styrktur af Neistanum. Foreldrar hans halda úti bloggsíðu um baráttu hans hér á Vísi. Slóðin á bloggið er blogg.visir.is/bergurstjornugolf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.