Lífið

Slökkviliðsmaður á mótorfáki

Breki Logason skrifar
Oddur Eiríksson á mótorhjólinu.
Oddur Eiríksson á mótorhjólinu.

„Það má segja að hugmyndin hafi komið fyrst frá mér," segir Oddur Eiríksson slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður um kaup Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á tveimur vel búnum vélhjólum. Hjólin eru hugsuð til þess að tryggja enn skjótari viðbrögð þegar umferð er mikil og mikið af fólki í bænum.

Oddur sem hefur starfað sem slökkviliðsmaður í þrjátíu ár er mikill vélhjólamaður og átti eitt sllíkt þegar hann var ungur. „Ég fékk mér síðan annað fyrir nokkrum árum."

Oddur hefur notað hjólið sitt nokkuð í starfi síðustu tvö árin og stakk síðan upp á því að keypt yrðu tvö hjól. „Ég sendi mínum yfirmönnum póst og þeir tóku bara mjög vel í þetta," segir Oddur en vélhjól voru fyrst prófuð hjá slökkviliðinu hér á landi í tengslum við Þjóðvegahátíðina miklu í „den" eins og Oddur orðar það.

„Í öllum helstu höfuðborgum í kringum okkur eru menn með svona farartæki. Hugsunin er sú að þegar bærinn er fullur af fólki þá komast slökkviliðs- og sjúkrabílar ekki yfir umferðina. Þegar það er mikil umferð út úr bænum setjum við mann á hjólið milli fjögur og átta," segir Oddur en nokkur kraftur er í hjólunum sem eru 650cc og voru flutt inn af versluninni Nítró.

Á hjólunum er einnig búnaður til forgangsaksturs og búnaður til endurlífgunar, svo sem súrefni, hjartastuðtæki, sáraumbúnaður, búnaður til að setja upp vökva og fleira. Einnig er á þeim slökkvitæki með sex kílóum af léttvatni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.