Innlent

Vill að ókeypis verði í strætó

MYND/GVA

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, hyggst á morgun leggja fram tillögu í borgarráði um að fargjöld með Strætó verði felld niður frá og með áramótum.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að kostnaður við rekstur Strætós nemi um þremur milljörðum á ári en fargjaldatekjur séu nærri 600 milljónir. Með því að fella niður gjöldin væri verið að gera fólki að nýta ókeypis strætóferðir á tímum hækkandi eldsneytisverðs og erfiðleika í rekstri heimila í borginni.

„Ávinningurinn með því að fella niður innheimtu fargjalda að upphæð kr 580 milljónir er margfaldur, ef það tekst að stórauka nýtingu almenningssamgangna í borginni, sem þýðir minni mengun, minni kostnaður við gerð og viðhald umferðarmannvirkja og minni kostnaður fjölskyldna í Reykjavík vegna rekstrar bifreiða," segir Ólafur.

Þá bætir hann við: „Gæluverkefni á borð við neðanjarðarstokka í borginni fyrir tugi milljarða króna má ýmist hætta við eða slá á frest og ber þar fyrst að nefna fyrirhugaðan stokk frá Sjávarúvegshúsinu við Sæbraut yfir í Ánanaust. Tillöguflytjandi hafnar þessari forgangsröðun ásamt fyrirætlunum um hækkun strætófargjalda. Fyrirætlanir sjálfstæðismanna um hækkun þjónustugjalda og rándýrar stokkaframkvæmdir er röng forgangsröðun þegar þjarmað hefur verið að efnahag og velferð heimila í borginni. Þvert á móti ber að forgangsraða í þágu þjónustunnar við fólkið í borginni og forðast offjárfestingar og miklar lántökur á kostnað almennings," segir Ólafur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×