Innlent

50 milljónir stöfnuðust í Á allra vörum

Yfir 50 milljón króna söfnuðust í styrktarátakinu Á allra vörum sem fram fór í sumar en því er ætlað að safna fé til að styðja kaup á nýjum tækjabúnaði á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Fjölmargir tóku þátt í átakinu með kaupum á varagljáa frá Yves Saint Laurent , auk þess sem ráðist var í sérstakan söfnunarþátt þar sem 35,2 milljónir krónur söfnuðust til styrktar átakinu.

Átakið má rekja til Gróu Ásgeirsdóttur en hún greindist með brjóstakrabbamein á síðasta ári. „Markmiðið með átakinu var að leggja Krabbameinsfélaginu lið og einnig að vekja athygli á því hversu alvarlegur sjúkdómur brjóstakrabbamein er," segir Gróa en hún fékk vinkonur sínar til liðs við sig og hafa þær leitt þetta verkefni frá upphafi.

Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, segir ótrúlegt hverju þessar dugnaðarkonur hafa komið í verk. ,,Við tökum ánægð við þessu söfnunarfé og getum lofað því að það fer til góðra nota. Það er einnig ánægjulegt að finna jákvæðnina og gleðina sem einkennt hefur þetta fjáröflunarátak. Við metum mikils þann samhug og kraft sem beinir velvilja að því mikilvæga verkefni að bæta leit að brjóstakrabbameini."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×