Innlent

Vill fá lífeyrissjóðina inn í Glitni

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis.
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis.

„Við erum að sjálfsögðu ánægðir með yfirlýsingar formanns Landssambands lífeyrissjóðanna," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis. En bæði Arnar Sigmundsson formaður Landssambands lífeyrissjóðanna og Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri hafa sagt að möguleiki væri á að færa eignir lífeyrissjóðanna að andvirði 200 milljarða króna til landsins á skömmum tíma. Þorsteinn segir að ríkið, sem nýr eigandi að Glitni, ætti að skoða hvernig lífeyrissjóðirnir geti komið að eignaraðild á bankanum. Málið sé í höndum stjórnvalda. „Ég hef sagt alveg frá því að ég tók við formennsku í stjórn Glitnis að það væri æskilegt að fá lífeyrissjóðina sem sterka eignaraðila að bankanum," segir Þorsteinn Már .

„Hvað varðar atburði helgarinnar þá má segja að síðasta helgi hafi verið stóra helgin hjá okkur í Glitni þegar ríkið ákvað að gera hluthöfum Glitnis tilboð um að koma inn í bankann. Að því leyti er Glitnir í annarri stöðu eftir að ríkið er komið inn sem hluthafi hjá okkur," segir Þorsteinn. Hann segir að stjórnendur Glitnis hafi á þessu ári unnið markvisst að því að minnka efnahagsreikning bankans. Hann leggur áherslu að menn leggist á eitt við að skapa frið og ró um starfsemi bankans. Það þjóni hagsmunum viðskiptavina og almennings best.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×