Innlent

Voðaskotið í Rússlandi: Íslenska stúlkan kom til Íslands í gær

Utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið.

„Við getum staðfest það að 17 ára íslensk stúlka sem var skiptinemi í bænum Astrakahn í Rússlandi varð fyrir því að eiga aðild að því sem samkvæmt okkar heimildum er slysaskot. Það olli því að tvítugur piltur lést af völdum skotsársins á sjúkrahúsi," segir Pétur Ásgeirsson skrifstofustjóri hjá Utanríkisráðuneytinu.

Pétur segir að stúlkan hafi komið hingað til lands í gær en Utanríkisráðuneytið hefur staðfest við Rússnesk stjórnvöld að stúlkan sé hér á landi. Atburðurinn átti sér stað á heimili fjölskyldu sem stúlkan dvaldi hjá síðdegis á föstudag í síðustu viku.

Rússneski fréttavefurinn www.newsru.com, segir í frétt sinni um málið í morgun að stúlkan hafi farið til Moskvu og sé eftirlýst.

Pétur segir að stúlkan hafi leitað til sendiráðs Íslands í Moskvu en það hafi verið vilji fjölskyldu hennar að hún kæmi heim til Íslands. „Hún var með vegabréf og var ekki í farbanni," segir Pétur.

Í fyrrgreindri frétt newsru.com segir að slysið hafi verið með þeim hætti að tvítugur piltur, sem er fjölskyldumeðlimur fjölskyldunnar sem stúlkan dvaldi hjá, hafi verið að tala í síma og systir hans hafi verið í tölvunni.

Skyndilega hleypur voðaskot af byssu sem íslenska stúlkan heldur á og fer í höfuð drengsins. Hann lést síðan af skotsárinu á sjúkrahúsi fjórum dögum síðar.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×