Innlent

Íslenskur skiptinemi sagður eftirlýstur fyrir manndráp í Rússlandi

Rússnesk stjórnvöld eru sögð hafa lýst eftir íslenskri stúlku sem var skiptinemi þar í landi vegna manndráps af gáleysi.

Á vefnum Russia InfoCenter segir að stúlkan hafi dvalið hjá rússneskri fjölskyldu í borginni Astrakhan í suðvesturhluta Rússlands þar sem hún hafi lagt stund á rússnesku. Enn fremur kemur fram að stúlkan hafi verið að leika sér með byssu á heimilinu og að skot hafi hlaupið af henni og hafnað í höfði tvítugs pilts sem þar bjó. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum fjórum dögum síðar.

Russia InfoCenter segir að íslenska stúlkan hafi flúið til Moskvu og þaðan úr landi. Hennar sé því leitað vegna ákæru um manndráp af gáleysi. Þegar Vísir hafði samband við alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra fengust þær upplýsingar að menn þar á bæ könnuðust ekki við málið. Ekki hefði borist fyrirspurn frá Rússlandi um það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×