Innlent

Óttast um hag sinn og fjölskyldna sinna

Starfsfólk í Landsbankanum er uggandi yfir sínum hag eftir að skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins tók yfir stjórn Landsbankans í samræmi við nýsamþykkt lög. Þetta segir Helga Jónsdóttir, formaður starfsmannafélags Landsbankans. „Það vinna hérna um 1550 manns og við eigum okkar fjölskyldur og við erum að horfa framan í viðskiptavinina sem eru líka uggandi," segir Helga í samtali við Vísi. „Þannig að þetta er mjög einkennilegt ástand, vægast sagt," segir Helga.

Viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra funduðu með starfsmönnum Landsbankans í hádeginu. Helga segir að lítið hafi komið fram á þeim fundi sem ekki hafi verið búið að koma fram fyrr um morgunin. Viðskiptaráðherra hafi útskýrt fyrir starfsfólki að kjör þeirra héldust óbreytt.

Helga segir þrátt fyrir þetta að starfsmenn skynji að framtíð þeirra sé óörugg og séu uggandi vegna þess. Við það bætist síðan að margir starfsmenn hafi átt hlutabréf í bankanum sem nú séu orðin verðlítil.

Helga segir að verið sé að meta stöðuna. Það verðir upplýsingafundur á vegum bankans í dag. Svo þarf bara að róa mannskapinn og halda sjó," segir Helga. „En þjóðin þarf að standa með okkur i því af því að það veldur uppnámi ef fólk er að koma og rífa út peningana sína."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×