Innlent

Vildu fresta umræðu um fjárlög vegna óvissunnar

MYND/GVA

Fyrsta umræða um fjárlög næsta árs hófst á Alþingi í dag í skugga mikillar efnhagskreppu. Þingmenn Vinstri - grænna og Frjálslynda flokksins vildu hins vegar við upphaf þingfundar að umræðu um fjárlagafrumvarpið yrði frestað vegna óvissunnar í samfélaginu.

Það var Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, sem kom í pontu og benti á að umræða fjárlagafrumvarp hefði hliðsjón af efnhagsspám sem gerðar hefðu verið. Vandinn væri hins vegar sú óvissa sem menn stæðu frammi fyrir en beðið væri eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ef lýsa ætti á myndrænan hátt óvissunni þá væri hún eitt spurningarmerki. Spurði Ögmundur hvað ríkisstjórnin hygðist gera varðandi skuldbindingar og fjármálakerfi landsins. Hann teldi eðlilegt við þessar aðstæður að fresta umræðu um fjárlagafrumvarp þar til það lægi fyrir hvaða ráðstafanir ríkisstjórnin legði til.

Fjárlagafrumvarp skrifað með ósýnilegu bleki

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, vísaði hins vegar í stjórnarskrána og sagði að umræður ættu að fara fram um frumvarpið þegar það hefði verið lagt fram. Taldi hann eðlilegt að ganga til umræðunnar svo fjárlaganefnd gæti í framhaldinu hafið sína vinnu. Í sama streng tók Geir H. Haarde forsætisráðherra sem sagðist skilja ábendingar um óvissu. Það breytti ekki því að það væri eðlilegt að ganga til verka varðandi fjárlagafrumvarpið. Málið yrði að komast í vinnslu í þinginu og síðan myndi framvinda þess markast af ákvörðunum sem teknar yrðu á næstunni.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði að umræðan um fjárlög yrði ómarkviss og ómarktæk á þessari stundu. Fjárlagafrumvarpið endurspeglaði ekki veruleikanna og það væri skrifað með ósýnilegu bleki og í raun marklaust plagg. Framsóknarmenn sæju hins vegar ekki ástæðu til að fresta umræðunni heldur ætti málið að fara til fjárlaganefndar og þar yrðu gerðar grundvallarbreytingar á frumvarpinu.

Jón Magnússon, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, tók undir orð Ögmundar og vildi fresta umræðunni. Hann benti á það að kostnaður vegna yfirtöku ríkisins á Glitni hefði aukist úr 84 milljörðum í 93 á innan við viku. Forgangsverkefni væri að ná stöðugleika og forsætisráðherra yrði að vinna að því.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði fjárlagafrumvarpið alltaf ákveðinn spádóm og að það væri alltaf lagfært. Þá sagði hann að menn gætu ímyndað sér óvissuna ef Alþingi myndi ekki fylgja stjórnarskrá og ræða fjárlagafrumvarpið. Umræðan væri liður í því að skapa þann stöðugleika sem eftir væri kallað




Fleiri fréttir

Sjá meira


×