Lífið

Campell sér ekki eftir að hafa úthúðað flugáhöfn

Naomi Campell.
Naomi Campell.

Ofurfyrirsætan Naomi Campbell sakar flugfélagið British Airways um kynþáttafordóma og sér ekki eftir að hafa úthúðað flugáhöfn félagsins. Hún sér hins vegar eftir að hafa ráðist á lögreglumenn. Campbell var dæmd fyrir athæfið í gær.

Upp úr sauð í flugvél Brisith Airways á Heathrow flugvelli skömmu fyrir flugtak í apríl. Farangur Campbell hafði týnst líkt og þúsunda annarra í flugstöð fimm á vellinum sem nýlega hafði verið tekin í notkun. Til harkalegra orðaskipta kom milli Campbell og áhafnar. Lögregla var kölluð til. Campbell hrækti á lögreglumann og sparkaði í hann. Hún var leidd burt í járnum. Campbell játaði brot sín og var í gær dæmd til að sinna samfélagsþjónustu í tvö hundruð klukkustundir og greiða jafnvirði hálfrar milljónar króna í sektir og bætur.

Campbell sér eftir að hafa ráðist á lögreglumennina enda hafi hún ekkert upp á Lundúnalögregluna að klaga. Hún sér hins vegar ekki eftir neinu þegar kemur að flugáhöfn British Airways. Fólkið hafi verið kynþáttahatarar.

Campbell hefur átt erfitt með skap hin síðari ár. Í fyrra var hún dæmd til samfélagsþjónustu í New York eftir að hún henti farsíma í ráðskonu sína. Áður hafði hún verið dæmd í reiðistjórnunarnámskeið eftir árás á starfsmann sinn í Kanada. Vopnið þá var einnig farsími en hún bætti um betur með því að hóta að henda manninum úr bíl á ferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.