Fótbolti

Þýskaland í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bastian Schweinsteiger fagnar hér marki sínu í kvöld.
Bastian Schweinsteiger fagnar hér marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Þýskaland er komið í undanúrslit á EM 2008 eftir glæsilegan 3-2 sigur á Portúgal í kvöld. Bastian Schweinsteiger átti stórleik en hann skoraði fyrsta mark Þjóðverja og lagði upp hin tvö. Nuno Gomes og Helder Postiga skoruðu mörk Portúgals.

Þjóðverjar urðu fyrir áfalli þegar í ljós kom að Torsten Frings yrði ekki með þeim í leiknum í kvöld þar sem hann er með brotið rifbein. En það kom ekki að sök og strax á 22. mínútu komust þeir þýsku yfir.

Þetta þýddi að þeir Thomas Hitzlsperger og Simon Rolfes voru báðir varnartengiliðir og Joachim Löw, sem var í banni í kvöld, stillti aðeins upp einum sóknarmanni - Miroslav Klose. Michael Ballack var fremstur á miðjunni, Lukas Podolski á vinstri kantinum og Schweinsteiger á þeim hægri.

Það kom hins vegar fátt á óvart í uppstillingu Portúgals með Cristiano Ronaldo fremstan í flokki. Uppstillingin var sú sama og þegar Portúgal vann sigur á Tékkum í annarri umferð riðlakeppninnar.

Lukas Podolski og Michael Ballack áttu þá laglegt samspil á vinstri kantinum sem opnaði vörn Portúgals upp á gátt. Podolski átti svo sendingu fyrir markið þar sem Bastian Schweinsteiger kom aðvífandi og stýrði boltanum í netið af stuttu færi.

Aðeins fjórum mínútum síðar átti Schweinsteiger fyrirgjöf inn á teig úr aukaspyrnu. Miroslav Klose náði að hrista varnarmenn Portúgals af sér og skoraði með skalla.

En Portúgal neitaði að játa sig sigrað og á 42. mínútu minnkaði Nuno Gomes metin. Jens Lehmann varði þá frá Cristiano Ronaldo eftir laglegan undirbúning Deco og Simao en Nuno Gomes náði frákastinu og skoraði. Cristoph Metzelder var nálægt því að verja á marklínu en boltinn fór af honum og í markið.

Síðari hálfleikur hófst með látum en á 61. mínútu komst Þýskaland í 3-1 forystu með marki Michael Ballack.

Aftur fékk Þýskaland aukaspyrnu eftir að Pepe hafði brotið nokkuð illa á Klose. Schweinsteiger tók aukaspyrnuna og Ballack hafði betur í baráttunni við Paulo Ferreira og skallaði knöttinn í markið.

Ballack ýtti þó létt við Ferreira en það sást greinilega í endursýningum í sjónvarpi. Podolski hafði einnig ýtt við varnarmanni Portúgals skömmu áður en hann gaf sendinguna á Schweinsteiger í fyrsta marki þýska landsliðsins.

Luiz Felipe Scolari, landsliðsþjálfari Portúgal, var ekki ánægður með að dómarinn hafi ekki dæmt Ballack brotlegan en hann fékk engu breytt.

Allt útlit var fyrir að sigurinn væri tryggður en varamaðurinn Helder Postiga minnkaði muninn fyrir Portúgal á 87. mínútu leiksins með skalla eftir fyrirgjöf Nani. Þýska vörnin svaf þar illa á verðinum en Postiga var einn á auðum sjó.

En nær komust Portúgalar ekki og verða því að bíta í það súra epli að falla úr leik á EM eftir að hafa náð sér vel á strik í upphafi mótsins.

Í kvöld varð Nuno Gomes fjórði knattspyrnumaðurinn til að skora á þremur mismunandi Evrópumótum. Hinir eru Jürgen Klinsmann, Vladimir Smicer og Thierry Henry.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×