Innlent

Prófessor: Rekur ekki minni til að sambærilegt hafi gerst áður

Gunnar Helgi Kristinsson.
Gunnar Helgi Kristinsson.

„Þetta er nú mjög óvenjulegt og eiginlega alveg einstakt," segir Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands þegar hann er spurður álits á afsögn Bjarna Harðarsonar þingmanns. „Hann játaði auðvitað strax í gærkvöldi að sér hefði orðið á mistök. Síðan bregst Valgerður illa við og hann hefur bara talið að þetta væri það alvarleg yfirsjón að hann gæti varla beðið kjósendur um að treysta sér áfram," segir Gunnar.

„En annað eins hefur nú gerst þó að menn hafi ekki sagt af sér hér á Íslandi þannig að þetta er áhugaverð og ný staða. Vonandi er þetta einhver þróun að stjórnmálamönnum finnist að það sé ástæða til að segja af sér." Hann segir ákvörðun Bjarna vera mjög óvenjulega miðað við sögu þingsins. „Mér rekur satt að segja ekki minni til þess að menn hafi sjálfviljugir sagt af sér þingmennsku vegna einhverra glappaskota."

Aðspurður hvort þetta mál veiki formann Framsóknarflokksins, Guðna Ágústsson, segir Gunnar Helgi: „Þetta mál virðist veikja Guðna, því Bjarni hefur verið hans helsti skoðanabróðir á þingi. Valgerður hefur verið leiðtogi hins armsins í flokknum og það er ekkert útilokað að hún fari að hugsa sér til hreyfings í þeirri baráttu. Það að Bjarni skyldi senda út þennan póst verður að túlkast í því ljósi líka," segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×