Innlent

Tvöföld Reykjanesbraut vígð í dag

Kristján L. Möller samgönguráðherra opnar klukkan tvö í dag síðasta kaflann í tvöföldun Reykjanesbrautar við Stapahverfi í Reykjanesbæ og vígja þar með tvöfalda Reykjanesbraut frá Hafnarfirði til Njarðvíkur. Að vígslu lokinni verður umferð hleypt á þenna síðasta kafla, hálfum mánuði á undan áætlun.

„Athöfnin fer fram á veginum við mislæg gatnamót við Stapahverfi kl. 14:00. Að henni lokinni býður Vegagerðin og Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut í samsæti í Fjölbrautarskóla Suðurnesja," segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

„Fyrri hluti tvöföldunar, frá Hvassahrauni á Strandarheiði, hófst í janúar 2003 og lauk í október 2004. Seinni hluti, frá Hvassahrauni að Njarðvík, var boðinn út í september 2005. Eftir að Jarðvélar ehf. sögðu sig frá verkinu var það boðið út að nýju sl. vor. Fyrst var miðað við að umferð yrði hleypt á tvöfalda Reykjanesbraut 16. október en þar sem óvenju langan tíma tók að semja við verktaka (lægstbjóðandi var ekki metinn hæfur) var miðað við að umferð yrði hleypt á tvöfalda braut alla leið 1. nóvember," segir einnig.

Samið var við Ístak hf. um byggingu nýju akbrautarinnar en við Eykt ehf. um smíði brúa. „Verkið hefur gengið vel sem sést á því að umferð verður hleypt á báðar akreinar hálfum mánuði á undan áætlun," segir að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×