Erlent

Öryggisráð SÞ hvatt til að efla vopnasölubann í Kongó

Uppreisnarmaður í Kongó.
Uppreisnarmaður í Kongó. MYND/AFP

Amnesty International hefur hvatt Sameinuðu þjóðirnar til að efla vopnasölubann sitt gagnvart Lýðveldinu Kongó. Í opnu bréfi til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna, sem kom saman til fundar þann 15. desember til að ræða vopnasölubannið, skýrðu samtökin frá því að dráp, nauðganir og önnur alvarleg mannréttindabrot gegn almennum borgurum séu daglegt brauð í landinu vegna fjölgunar vopna og skotfæra í landinu.

Engar starfsreglur hvernig flytja eigi hergögn



,,Í bréfinu segir að MONUC, friðargæslulið Sameinuðu Þjóðanna í Kongó, hafi engar starfsreglur til að styðjast við til að tryggja að stjórnarher landsins geymi, flytji og noti herbúnað með eðlilegum hætti eftir að hergögn koma til landsins.

Í bréfinu er öryggisráðið hvatt til að efla vopnsölubannið þannig að það nái til landsins alls, með takmörkuðum undanþágum, eða innleiða að minnsta kosti fimm sérstök tilmæli, til að MONUC geti fylgst betur með hergögnum og tryggt að þau komist ekki í hendur vopnaðra hópa," segir í tilkynningu Íslandsdeildar Amnesty International.

Vilja tafarlausar aðgerðir



Amnesty International fara fram á að öryggisráðið hvetji alþjóðasamfélagið til tafarlausra aðgerða til að aðstoða stjórnvöld í Kongó við að efla fagmennsku innan stjórnarhersins og tryggja hergögn hans.

Vopnasala þrátt fyrir vopnasölubann SÞ

,,Þrátt fyrir að vopnasölubann Sameinuðu Þjóðanna hafi verið í gildi í mörg ár, hafa vopnaðir hópar getað keypt vopn, skotfæri, herbúnað og önnur gögn. Það hefur gert þeim kleift að fremja stríðsglæpi og stórfelld mannréttindabrot gegn almennum borgurum.

Stjórnarherinn í Kongó ber einnig ábyrgð á ýmsum mannréttindabrotum. Um einn af hverjum fjórum íbúum Norður-Kivu hefur nú þurft að flýja heimili sitt," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×