Innlent

Starfsmenn Kaupþings gætu átt yfir höfði sér fangelsisdóm

Helgi Magnús Gunnarsson yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra segir það geta reynst starfsmönnum Kaupþings dýrkeypt að bankinn hafi afskrifað skuldir þeirra vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld. Helgi Magnús segir að brotin geti varðað allt að sex ára fangelsi.

Helgi Magnús segir að þarna komi til skoðunar hvort um sé að ræða einhverskonar skilasvik. Það sé refsivert að mismuna ef skuldari með óhóflegum gjöfum eða öðru skerðir rétt annarra varðandi fullnustu krafna sinna.

Hann hefur þó þann fyrirvara að ekki sé búið að rannsaka málið og ekkert hafi enn verið kært. Helgi Magnús sagði einnig að sér hefði fundist vanta áhuga stjórnmálamanna og ráðuneyta við að tryggja refsilöggjöf og hafa áætlun um hvernig bregðast megi við svona málum og leiða þau til lykta.

Gunnar Páll Pálsson formaður VR og fyrrum stjórnarmaður í Kaupþing sagði í fréttum Sjónvarpsins að afskriftirnar hefðu verið skásti kosturinn í stöðunni. „Með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi töldum við þennan kost skárri en hinn sem hefði leitt til hruns hlutabréfa í bankanum," sagði Gunnar Páll.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×