Sport

Klárt hvaða lið mætast í úrslitakeppni NFL-deildarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Romo og félagar í Dallas komust ekki áfram í úrslitakeppnina.
Tony Romo og félagar í Dallas komust ekki áfram í úrslitakeppnina. Nordic Photos / Getty Images

Nú er ljóst hvaða lið komust áfram í úrslitakeppni NFL-deildarinnar en deildakeppninni lauk í gær. Detroit Lions varð fyrsta liðið í sögu deildarinnar til að tapa öllum sextán leikjum sínum á tímabilinu.

Philadelphia Eagles tókst að vinna sér sæti í úrslitakeppninni með óvæntum stórsigri á Dallas í gær, 44-6. Hins vegar mistókst New York Jets, liði Brett Favre, að tryggja sig áfram eftir að byrjunin á tímabilinu lofaði góðu.

Jets vann átta af fyrstu ellefu leikjum sínum en tapaði fjórum af síðustu fimm leikjum sínum, nú síðast fyrir Tennessee.

Favre hefur átt við meiðsli í öxl að stríða og segir að hann muni ekki taka ákvörðun um framtíðina fyrr en hann veit meira um batahorfur sínar. Hann er 39 ára gamall og ætlaði að hætta eftir síðasta tímabil en ákvað að snúa aftur í sumar.

New England Patriots komst heldur ekki í úrslitakeppnina í fyrsta sinn síðan 2002 en liðið tapaði fyrir New York Giants í Super Bowl á síðasta tímabili.

Patriots vann ellefu leiki af sextán á tímabilinu og varð þar með fyrsta liðið síðan 1985 sem kemst ekki í úrslitakeppninna með það sigurhlutfall.

Önnur lið sem áttu enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni fyrir lokaumferðina en komust ekki áfram voru til að mynda Chicago Bears og Tampa Bay Buccaneers sem leika í Þjóðardeildinni. Síðarnefnda liðið tapaði óvænt fyrir Oakland en Chicago fyrir Houston.

Í Ameríkudeildinni áttust San Diego og Denver við í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kæmist í úrslitakeppnina og vann San Diego stórsigur í leiknum, 52-21. Baltimore komst einnig áfram með því að vinna Jacksonville, 24-7.

Alls komust tólf lið áfram í úrslitakeppnina en fjögur þeirra komust beint áfram í fjórðungsúrslitin. Hin átta þurfa að mætast í umspili um hin fjögur sætin.

Liðunum er raðað í styrkleikaröð úr báðum deildum og í fjórðungsúrslitunum mætir liðið sem er í efsta sæti alltaf neðsta liðinu af þeim sem komast áfram úr umspilinu.

Ameríkudeildin:

1. Tennessee Titans (sigurvegari suðurriðilsins)

2. Pittsburgh Stellers (sigurvegari norðurriðilsins)

3. Miami Dolphins (sigurvegari austurriðilsins)

4. San Diego Chargers (sigurvegari vesturriðilsins)

5. Indianapolis Colts

6. Baltimore Ravens

Þjóðardeildin:

1. New York Giants (sigurvegari austurriðilsins)

2. Carolina Panthers (sigurvegari suðurriðilsins)

3. Minnesota Vikings (sigurvegari norðurriðilsins)

4. Arizona Cardinals (sigurvegari vesturriðilsins)

5. Atlanta Falcons

6. Philadelphia Eagles

Leikir fyrstu umferð úrslitakeppninnar:

Ameríkudeildin:

Miami (3) - Baltimore (6) (4. janúar)

San Diego (4) - Indianapolis (5) (3. janúar)

Af þeim tveimur liðum sem komast áfram, mætir liðið sem er ofar í styrkleikaröðinni Pittsburgh þann 11. janúar en hitt Tennessee þann 10. janúar.

Leikur Miami og Baltimore verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti en hann hefst óvenju snemma, eða klukkan 18.00.

Úrslitaleikur Ameríkudeildarinnar deildarinnar verður háður þann 18. janúar.

Þjóðardeildin:

Arizona (4) - Atlanta (5)

Minnesota (3) - Philadelphia (6)

Af þeim tveimur liðum sem komast áfram, mætir liðið sem er ofar í styrkleikaröðinni New York Giants þann 11. janúar en hitt Carolina þann 10. janúar.

Úrslitaleikur Þjóðardeildarinnar verður háður þann 18. janúar.

Úrslitaleikurinn um NFL-meistaratitilinn, Super Bowl, verður háður þann 1. febrúar á Raymond James-leikvanginum í Tampa í Flórída, heimavelli Tampa Bay Buccaneers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×